Öflugur fasteignaleitarvefur með einföldu og notendavænu viðmóti sem býður upp á ítarlegar upplýsingar um fasteignir, þróun verðlags og fróðleik um fasteignamarkaðinn.
Fasteignakaup eru í flestum tilfellum stærsta fjárfesting sem við ráðumst í á lífsleiðinni. Því skiptir máli að vera meðvituð um þau atriði sem helst þarf að hafa í huga við mat á kaupum. Þannig má einnig forðast að sitja uppi með óvæntan framkvæmdakostnað.
Samkvæmt fasteignakaupalögum er skoðunarskylda kaupenda rík og geta þeir til að mynda ekki borið fyrir sig galla sem hefði mátt sjá við almenna skoðun. Við afhendingu flyst ábyrgðin af seldri fasteign frá seljanda yfir til kaupanda.
Sem fasteignasali hef ég veitt því athygli að fólk tekur gjarnan einn hring um rýmið, skoðar skipulagið, útlit og stærð herbergja en gleymir oft að opna skápa, skrúfa frá krönum, sturta niður, prófa ljósrofa og svo framvegis.
Þegar við kaupum notaða fasteign er auðvitað ekki hægt að búast við því að hún sé í sambærilegu ástandi og þegar hún var byggð, því allt veðrast og slitnar með árunum. Ef engin saga eða reikningar eru til um viðhald eða endurbætur þá má gera ráð fyrir að allt sé upprunalegt nema annað sjáist greinilega við skoðun. En ætla má að fasteignaverð endurspegli ástand eignarinnar.
🔍
Að mörgu er að huga. Hér að neðan er yfirlit yfir tíu lykilatriði sem gott er að hafa á bak við eyrað við skoðun fasteigna. Listinn er ekki tæmandi, en ætti að gefa góða mynd af ástandi eignarinnar.
Erfitt getur reynst að sjá ástand þaks og í mörgum tilfellum er eingöngu hægt að sjá ysta lag þess. Það er yfirleitt klætt með þunnplötuklæðningu eða þakpappa og grófri möl sem lögð er ofan á einangrunina. Þak er gjarnan stór kostnaðarliður í viðhaldi húsa og því mikilvægt að gera sér einhverja mynd um ástand þess.
Er sjáanlegt ryð?
Er málning farin að flagna?
Er þakkantur farinn að fúna?
Eru einhver merki um að þakið sé að leka eða hafi lekið?
Það fer eftir gerð glugga hvernig þeim er best viðhaldið. Timburglugga, sem eru algengastir í eldri húsum, þarf að mála með reglulegu millibili en ál og svokallaðir pvc gluggar eru viðhaldsminni.
Erfitt getur verið að átta sig á því hvort gluggar séu að leka en merki um það getur verið að málning sé að bólgna eða sprungur séu að myndast í veggjum við glugga. Einnig er mikilvægt að skoða glugga í nýbyggingum vel því þeir geta líka lekið.
Er opnanlega fagið þétt?
Er einfalt eða tvöfalt gler? Í nýjum húsum er gerð krafa um tvöfalt gler.
Er móða á milli glerja? Það er merki um að tími sé kominn á endurnýjun.
Er timbrið í gluggakörmumfarið að fúna?
Er vatnsbrettið að utan farið að fúna eða múr farinn að springa?
Eru barnalæsingar á opnanlegum fögum þar sem við á?
Til að skoða ástand frárennslislagna þarf sérstaka myndavél. Það er lítið mál að láta gera það og getur margborgað sig ef um eldri hús er að ræða. Endurnýjun á dreni og skólplögnum fylgir mikið rask og kostnaður.
Drenlagnir eiga að beina vatni frá útveggjum hússins. Eru þær til staðar?
Neyslu- og miðstöðvarlagnir eru í langflestum tilfellum ekki sýnilegar. Ef það er ekki mikið rennsli á vatninu í krönunum getur verið að rörin séu að renna sitt skeið, en lítið rennsli getur þó líka verið merki um að síur séu stíflaðar og það er smámál að leysa.
Er góður kraftur á neysluvatni?
Eru blöndunartæki hitastýrð? Það er mikið öryggisatriði, sérstaklega ef börn eru á heimilinu.
Raflagnir eru yfirleitt ekki sýnilegar, en rofa, tengla og rafmagstöflu er hægt að skoða með auðveldum hætti. Það er algengt í eldri húsum að jarðtengingu og lekastraumsrofa vanti sem í dag er talið mikið öryggisatriði og ætti því að vera til staðar í öllum nýjum húsum. Lekastraumsrofinn er staðsettur í rafmagnstöflunni og á að slá út ef útleiðsla eða bilun á sér stað.
Eru tenglar í húsinu gamlir og ekki nothæfir nema með millistykkjum?
Gólfefni eru af mörgum gerðum, parket, flísar, dúkur o.fl.. Gæði á parketi eru misjöfn og nokkrar leiðir eru til að setja það niður, t.d. fljótandi harðparket eða niðurlímt gegnheilt viðarparket.
Það reynir mikið á útidyrahurðir og því gott að skoða þær vel og sjá hvort þær séu þéttar og ekki fúnar. Hurðagöt eru orðin stærri en þau voru áður fyrr og þess vegna getur verið meira mál að skipta þeim út fyrir nýjar.