Öflugur fasteignaleitarvefur með einföldu og notendavænu viðmóti sem býður upp á ítarlegar upplýsingar um fasteignir, þróun verðlags og fróðleik um fasteignamarkaðinn.
Íbúðaverð hækkaði um 3,1% milli febrúar og mars en verðhækkanir milli mánaða hafa aukist á síðustu mánuðum þvert á væntingar. Hækkunin nú í mars var sú mesta milli mánaða síðan í mars í fyrra. Þessi niðurstaða rennir stoðum undir nýja spá Hagfræðideildar um aukna verðbólgu næstu mánuði.
Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 3,1% milli febrúar og mars. Fjölbýli hækkaði um 2,8% og sérbýli um 3,9%. Þessi hækkun verður að teljast mjög mikil, eða sú mesta síðan í mars í fyrra, og hafa hækkanir stigmagnast það sem af er þessu ári.
12 mánaða hækkun íbúðaverðs lækkar ögn þrátt fyrir þessa miklu hækkun milli mánaða og mælist nú 22,2% samanborið við 22,5% í febrúar. Minni hækkun á 12 mánaða grundvelli skýrist af því að hækkunin var einnig mjög mikil milli mánaða fyrir ári síðan. 12 mánaða hækkun fjölbýlis er óbreytt milli mánaða í 21,4% á meðan 12 mánaða hækkun sérbýlis lækkar og mælist 25,6%, sem er engu að síður mjög mikið í sögulegu samhengi
Í síðustu viku gaf Hagfræðideild út spá um þróun verðbólgu til næstu mánaða þar sem gert var ráð fyrir að drifkraftur hennar verði að miklu leyti hækkun húsnæðisverðs. Nýjasta mæling Þjóðskrár um íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu rennir stoðum undir þá spá þar sem hækkunin er býsna mikil. Við gerum þó ráð fyrir að innan tíðar muni hækkanir íbúðaverðs verða hófstilltari, bæði vegna hækkunar stýrivaxta og þar með minni eftirspurnar en einnig vegna aukins framboðs. Það mun styðja við hjöðnun verðbólgunnar.