Öflugur fasteignaleitarvefur með einföldu og notendavænu viðmóti sem býður upp á ítarlegar upplýsingar um fasteignir, þróun verðlags og fróðleik um fasteignamarkaðinn.
Nýleg skýrsla HMS gefur til kynna að enn ríkir töluverð lágdeyða yfir Fasteignamarkaði. Auglýstum eignum til sölu hefur farið fjölgandi og sömuleiðis eignum sem skráðar eru “seldar” en eru áfram birtar á fasteignavefum.
Það stafar meðal annars að því að meðalsölutími eigna hefur lengst töluvert. Á eftirfarandi mynd má sjá hvernig hlutfall seldra eigna á bilinu 80-120fm2 seldust í um 50% tilvika innan við fyrstu 60 daga frá því eign var sett á sölu þegar best lét árið 2022, en í ágúst árið 2023 er þetta hlutfall komið nær 20%.
Mest hafa þó áhrifin verið á stærri eignir en sjá má að eignir sem eru yfir 120fm2 seljast mjög ílla eða hreinlega ekki, í allt að 80% tilvika (innan þess tíma sem mælt er).
HMS áætlar að meðaltími sölu eigna á höfuðborgarsvæðinu séu 4,4 mánuðir, 6,6 mánuðir í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og 4,4, mánuðir annarstaðar á landinu. Þó má sjá að það er mjög mismunandi eftir póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu. Almennt virðast nýjar fullbúnar íbúðir seljast töluvert hægar sem kann að stafa af hærra fermetraverði og því að fólk leiti frekar í eldri eignir með fleiri fermetra.
Minna umsvif á fasteignamarkaði má fyrst og fremst rekja til hærra vaxtastigs og hertra útlánareglna. Takmarkanir Seðlabankans á fasteignalánum, um að hámark greiðslubyrðis megi ekki fara yfir 35% af ráðstöfunartekjum og 40% hjá nýjum kaupendum, gera eflaust mörgum erfitt fyrir að standast greiðslumat á eignum sem það hefði annars léttilega staðist fyrir um 1-2 árum síðan.
Þó Seðlabankinn virðist hafa hægt á stýrivaxtahækkunum sínum tímabundið þá er ekki útséð að þeim sé endanlega lokið. Í nýlegri spá Íslandsbanka um óbreytta stýrivexti í nóvember bendir bankinn á að 2 af 5 meðlimum peningastefnunefndar telja að mögulega þurfi að hækka stýrivexti enn frekar til að verðbólgumarkmiði verði náð. Þar hjálpar heldur ekki að íslenska krónan hefur veikst töluvert undanfarið og því gæti innflutt verðbólga aukist enn frekar.
Heilt yfir lítur því út fyrir að lágdeyðan muni halda áfram um nokkuð skeið. Þó er ein vísbending sem bendir til þess að umsvif gætu verið að aukast á ný, en hún er umdeilanleg. Skammtímavísir Hagdeildar HMS fylgist með fjöldi eigna sem teknar eru úr sölu af fasteignavefum. Algengast er að eignir séu teknar af fasteignavefum þegar þær eru komnar í söluferli, en ástæðan kann líka að vera sú að eigandi eignarinnar hættir við að selja hana. Staðan núna er sú að fjöldi eigna sem teknar hafa verið úr sölu frá júl-sep 2023 eru um 40% hærra heldur í júl-sep 2022.
Þetta bendir til þess að annaðhvort sé fjöldi kaupsamninga að aukast milli ára, sem gæti þýtt aukin umsvif á komandi mánuðum, eða að fleiri eigendur séu að hætta við sölu á eignum og markaðurinn eigi eftir að dragast enn frekar saman. Hvort verður, er erfitt að segja til um fyrr en raunfjöldi kaupsamninga liggur fyrir.